lommi

27. október 2024

Sunnudagssjálfa III

Súpan heppnaðist ágætlega, en börnunum fannst rófubitarnir of stórir.

Við fórum í göngutúr en það fór að rigna. Það fannst mínu fólki bara gaman.

Sunnudagssjálfan er ekki af mér, heldur af úrræðagóðum systkinum
26. október 2024

Matur

Í upphafi var ofsoðin ýsa og og já, guð, það var ofsoðin ýsa og engum fannst hún góð, en engum fannst hún vond heldur. Það var bara ofsoðin ýsa. Svo kom ýsa framreidd í álbökkum, sem mátti kippa með sér heim. Afskaplega þægilegt. Fyrst með spænskri sósu, svo með tómatsósu og fólk fór að hafa orð á því hvað væri gott að finna mun minna bragð af fisknum en áður, svo fólk fór að bæta við osti til að minnka bragðið enn frekar og svo beikoni og loks kepptust fiskbúðir við að hafa sem minnst af fiski í réttunum sínum, þar til það varð næstum óhjákvæmilegt að næsta skref yrði að fiskbúðir hættu að selja fisk. Það er ómögulegt viðskiptamódel fyrir fiskbúðir að selja ekki fisk, því þá tekst þeim illa að aðgreina sig frá öðrum verslunum sem nánast undantekningalaust selja líka ekki fisk. Starfsmenn fiskbúða fóru þá að ýta hráum fisk að fólki, með þeirri bón að það ætti ekki að mauka’ann heldur að léttsteikja’ann. „Því minna sem fiskurinn er eldaður, því betra.“ Sumir hættu þá að sjóða, steikja eða gera nokkuð við fisk og borðuðu hann bara hráan.

Og það eina sem er minna en að gera ekkert, er að fá einhvern annan til að gera það fyrir þig. Það var þá sem Guð gaf okkur kebab.


Bjarni Ben á að hafa sagt eitthvað um að það mætti ekki verða of mikil blöndun menningarheima hér og Hallgrímur Helgason á að hafa svarað honum á RÚV í gær með því að spyrja hvað aðrir menningarheimar væru. Kebab?

Afsakið ef ég hef þetta rangt eftir því ég hef hvorki lesið þetta né horft, geri það vonandi brátt, en ég kúgaðist þegar ég las endursögn á orðum Hallgríms. Ofsoðin ýsa. Helvítis ofsoðna ýsan sem ég át í alltof mörg ár. Takk allir sem björguðu okkur frá því.

Ég elska kebab.

26. október 2024

Helgin

Ég er bara að hanga með börnunum og skoða Internetið þessa helgi.


Einu sinni var ég oft á barnum um helgar og týndi allskonar, þar á meðal poka fullan af bókum.


Einhver frá Íran á Telegram segir í gríni að sjúkrabílar hafi verið kallaðir til vegna fólks sem dó úr hlátri yfir því hve ómerkilegar loftárásir Ísraelsmanna hafi verið. Aðrir frá Íran ásaka Jórdani og Sáda um að aðstoða Ísraelsmenn. Á Reddit eru svo Ísraelsmenn að örvænta yfir því hve illa gengur að heyja „stríð á sjö vígstöðum“ og á sama tíma á Twitter sýna hebreskar skoðanakannanir að miklum meirihluta finnst að stjórnvöld þurfi að vera enn herskárri. Líbanir líta á hvern einasta ísraelskan hermann sem er felldur sem ágætis tilraun sem megi ítra áfram [ath. mitt orðalag, ekki þeirra]. Gaza-búar á Telegram eru svo mest að telja upp hverjir dóu síðustu daga og minnast þeirra — það er jú skipulagt þjóðarmorð sem er viðhaft þar — varfærnislegast væri að segja að það sé ekki líklegt til árangurs að bjarga gíslum með því að svelta alla eða sprengja upp, en það er eflaust best að kalla hlutina sína réttu nafni: þjóðarmorð.

Mér sýnist á öllu, miðað við áframhaldandi loftárásir Ísraelsmanna, að þeir ætli sér að draga þetta á langinn og átökin og þjóðarmorðin muni stigmagnast. Meiri stigmögnun þrátt fyrir að nýjustu tölur sýni að hagkerfið þoli þetta illa, sálarlíf hermanna alls ekki, alþjóðasamfélagið (vonandi) er alveg að fá nóg og enginn augljós ávinningur sjáanlegur. Til að útskýra af hverju þarf einhvern betur að sér í real-politik en mig, einhvern sem veit hvaða fleiri breytur skipta máli í „raunveruleikanum“ eða kannski einhvern sem er betur að sér í grimmd.


Ég er að prufa gera kjötsúpu í slow-cooker í fyrsta sinn. Á pizzu í frystinum ef allt klikkar.

23. október 2024

Eru ekki öll ljóð bara kveikjur sem gervigreindin hefur ekki meðtekið?

let dream = true;
let surrender = false;

if (dream) {
    surrender = true;
}

Þetta er hálf tilgangslaus kóði. Steinn Steinarr var engin Ada Lovelace.

Það þarf einhver að mata vélarnar með bulli. Rangar og skrítnar tengingar eru skapandi, og sköpun getur þýtt nýjar hugmyndir, og nýjar hugmyndir eru peningar. Það verður ekkert ljóðskáld atvinnulaust næstu árin, sem hefur í för með sér mikinn skort á sjálfsútgefnum ljóðabókum. Eftir áratug eða tvo verður fólk tilbúið að greiða himinháar upphæðir fyrir ljóðabækur og þá tekur við stutt tímabil mikillar grósku.

20. október 2024

Sunnudagssjálfa II

Lesandinn hafði samband og spurði hvort þetta væri allt grín.

Nei.

Sunnudagssjálfa
15. október 2024

Þriðjudagur

Fólk brennur lifandi Lögreglan handsamar barn til að vísa úr landi

„…eru ekki bara allir að reyna sitt besta?“

Ekki svo mikið þessa stundina, held ég.

Þriðjudagur
13. október 2024

Sunnudagssjálfa

Ég lagðist upp í sófa. Fljótt komu tvö börn og tvær kisur og ég náði þessari mynd.

Sunnudagssjálfa
13. október 2024

Mörk

ég dreg mörkin
við KFC í morgunmat

Mörkin
9. október 2024

Enginn veit sína ævi fyrr en öll er

Ég bjóst aldrei við því að þurfa að skafa krem af Oreo fyrir lítið barn sem fullyrðir að gumsið skemmi annars frekar gott kex.

5. október 2024

Okkur langar að hafa gaman

Við erum mjög lítil þjóð og að okkur langar til að gera gott og langar til að skjóta skjólshúsi yfir fólk á flótta en við getum ekki gert það nema að einhverju ákveðnu marki.

segir Jón Gnarr RÚV

Við erum mjög lítil þjóð og okkur langar til að hafa gaman en við getum ekki gert það nema að einhverju ákveðnu marki.
4. október 2024

Samtal II

Við erum alltaf að bíða eftir einhverju.

Matthildur, fjögurra ára.

3. október 2024

Samtal I

Það þýðir ekkert að eiga í samtali við pizzusendla.

12. apríl 2024

Spilling

Mér finnst spilling heimilisleg og vær. Börnin sofa best þegar þau sofa oná fisk sem kaupmaðurinn pabbi þeirra stal. Þetta er ekki einhverjar vangaveltur heldur sannað með tímanum og verkum manna sem ég lít upp til. Með lögum skal land byggja og heimili með undanskotum og svikum. Þið sjáið mig ekki, bara þessi orð, en þið getið eflaust séð fyrir ykkur mig að éta mjólkurkex í bræðiskasti. Mjög heimilislegt. Og á veggnum hvílir stolin klukka og börnin, þau eru ekki einu sinni mín. Heimilisleg og vær spilling.

Djók. Ég er að bulla. Veit ekki hvað ég á að segja og börnin eru svo sannarlega mín.

3. mars 2024

Pulsur

Og þannig kenndi strákurinn minn, sem verður 5 ára í mars, hvernig búa á til pulsuspagettí.

pulsuspagettí
16. febrúar 2024

Ég skil ekki II

Lesandinn hafði samband og sagði að svartsýnir og hávaxnir mættu nota niðreftir.

Svo þetta er allt niðreftir héreftir.

123