lommi

ForsíðaBloggMatur
26. október 2024

Matur

Í upphafi var ofsoðin ýsa og og já, guð, það var ofsoðin ýsa og engum fannst hún góð, en engum fannst hún vond heldur. Það var bara ofsoðin ýsa. Svo kom ýsa framreidd í álbökkum, sem mátti kippa með sér heim. Afskaplega þægilegt. Fyrst með spænskri sósu, svo með tómatsósu og fólk fór að hafa orð á því hvað væri gott að finna mun minna bragð af fisknum en áður, svo fólk fór að bæta við osti til að minnka bragðið enn frekar og svo beikoni og loks kepptust fiskbúðir við að hafa sem minnst af fiski í réttunum sínum, þar til það varð næstum óhjákvæmilegt að næsta skref yrði að fiskbúðir hættu að selja fisk. Það er ómögulegt viðskiptamódel fyrir fiskbúðir að selja ekki fisk, því þá tekst þeim illa að aðgreina sig frá öðrum verslunum sem nánast undantekningalaust selja líka ekki fisk. Starfsmenn fiskbúða fóru þá að ýta hráum fisk að fólki, með þeirri bón að það ætti ekki að mauka’ann heldur að léttsteikja’ann. „Því minna sem fiskurinn er eldaður, því betra.“ Sumir hættu þá að sjóða, steikja eða gera nokkuð við fisk og borðuðu hann bara hráan.

Og það eina sem er minna en að gera ekkert, er að fá einhvern annan til að gera það fyrir þig. Það var þá sem Guð gaf okkur kebab.


Bjarni Ben á að hafa sagt eitthvað um að það mætti ekki verða of mikil blöndun menningarheima hér og Hallgrímur Helgason á að hafa svarað honum á RÚV í gær með því að spyrja hvað aðrir menningarheimar væru. Kebab?

Afsakið ef ég hef þetta rangt eftir því ég hef hvorki lesið þetta né horft, geri það vonandi brátt, en ég kúgaðist þegar ég las endursögn á orðum Hallgríms. Ofsoðin ýsa. Helvítis ofsoðna ýsan sem ég át í alltof mörg ár. Takk allir sem björguðu okkur frá því.

Ég elska kebab.