„Fasismi einkennist að sögn bandaríska sagnfræðingsins Stanleys Paynes af… andstöðu við frjálslyndisstefnu, íhaldsstefnu og kommúnisma… Samkvæmt þessu voru Mússólíní og Hitler vitaskuld fasistar. En er Donald Trump það? Því fer fjarri. Trump er að vísu andstæðingur kommúnisma, en sækir margt í frjálslyndisstefnu (lækkun skatta) og íhaldsstefnu (stuðning við fjölskylduna).“
Eitt sinn leit ég upp til Kurt Cobains og Ian Curtis. Núna eru hetjur mínar þær sem geta farið í Krónuna óundirbúnar eftir vinnu og valið í matinn án þess að bugast eða kaupa bara alltaf það sama.
Börnin rífast um hvort pantaðar pizzur, frosnar Ristorante-pizzur eða heimagerðar séu bestar, einsog er hefur Ristorante vinninginn. Það er trú sem sparar mér tíma og pening svo ég hef ekki eytt orku í að leiðrétta það.
Á samfélagsmiðlum sé ég ákall til fólks um að taka ekki þátt í því að bera út lygi, því lygin berst hraðar en sannleikur. Byssukúlur drífa lengra en pennastrokur, lækhnappurinn rífur niður færri borgir en jarðýtur. Það er fátt að gera þessa dagana annað en að dæsa yfir því hvað vel meinandi frasar eru gagnlausir. Kannski er dæsið eini sannleikurinn sem hægt er að standa við. Þetta er allt svolítið þreytt og ég eflaust mest. Frosnar Ristorante-pizzur eru bestar.
Ég er spenntur fyrir öllum bókunum í jólabókaflóðinu. Frosnar Ristorante-pizzur eru bestar. OK, sumum bókum, alveg mjög mikið. Ekki öllum. Ég vil finna orku til að lesa meira. Gera meira. Ekki éta meira af frosnum pizzum. Aldrei.
Í hverjum þætti er nýr og nýr flokkur boðaður í kappræður á Hótel Glym, en það eru í raun engar kappræður. Þess í stað er stjórnmálafólkið sannfært um að enginn annar hafi komist og þau séu nú veðurteppt þarna. Því næst að eitthvað hræðilegt hafi gerst og þau séu eina stjórntæka fólkið eftir í landinu og sitji því í einhverskonar skuggaráði og þurfi að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Þarna kynnumst við loksins innri manni stjórnmálafólks, ómengaður af skoðanakönnunum og kosningum.
Ég held ég sé trúaður en ég er ekki svona hanga’eð fólki kristinn. Bara klassíska erfðasyndin, sársauki, sektarkennd og refsing … alveg einn … kristinn.
Í upphafi var ofsoðin ýsa og og já, guð, það var ofsoðin ýsa og engum fannst hún góð, en engum fannst hún vond heldur. Það var bara ofsoðin ýsa. Svo kom ýsa framreidd í álbökkum, sem mátti kippa með sér heim. Afskaplega þægilegt. Fyrst með spænskri sósu, svo með tómatsósu og fólk fór að hafa orð á því hvað væri gott að finna mun minna bragð af fisknum en áður, svo fólk fór að bæta við osti til að minnka bragðið enn frekar og svo beikoni og loks kepptust fiskbúðir við að hafa sem minnst af fiski í réttunum sínum, þar til það varð næstum óhjákvæmilegt að næsta skref yrði að fiskbúðir hættu að selja fisk. Það er ómögulegt viðskiptamódel fyrir fiskbúðir að selja ekki fisk, því þá tekst þeim illa að aðgreina sig frá öðrum verslunum sem nánast undantekningalaust selja líka ekki fisk. Starfsmenn fiskbúða fóru þá að ýta hráum fisk að fólki, með þeirri bón að það ætti ekki að mauka’ann heldur að léttsteikja’ann. „Því minna sem fiskurinn er eldaður, því betra.“ Sumir hættu þá að sjóða, steikja eða gera nokkuð við fisk og borðuðu hann bara hráan.
Og það eina sem er minna en að gera ekkert, er að fá einhvern annan til að gera það fyrir þig. Það var þá sem Guð gaf okkur kebab.
Bjarni Ben á að hafa sagt eitthvað um að það mætti ekki verða of mikil blöndun menningarheima hér og Hallgrímur Helgason á að hafa svarað honum á RÚV í gær með því að spyrja hvað aðrir menningarheimar væru. Kebab?
Afsakið ef ég hef þetta rangt eftir því ég hef hvorki lesið þetta né horft, geri það vonandi brátt, en ég kúgaðist þegar ég las endursögn á orðum Hallgríms. Ofsoðin ýsa. Helvítis ofsoðna ýsan sem ég át í alltof mörg ár. Takk allir sem björguðu okkur frá því.
Ég er bara að hanga með börnunum og skoða Internetið þessa helgi.
Einu sinni var ég oft á barnum um helgar og týndi allskonar, þar á meðal poka fullan af bókum.
Einhver frá Íran á Telegram segir í gríni að sjúkrabílar hafi verið kallaðir til vegna fólks sem dó úr hlátri yfir því hve ómerkilegar loftárásir Ísraelsmanna hafi verið. Aðrir frá Íran ásaka Jórdani og Sáda um að aðstoða Ísraelsmenn. Á Reddit eru svo Ísraelsmenn að örvænta yfir því hve illa gengur að heyja „stríð á sjö vígstöðum“ og á sama tíma á Twitter sýna hebreskar skoðanakannanir að miklum meirihluta finnst að stjórnvöld þurfi að vera enn herskárri. Líbanir líta á hvern einasta ísraelskan hermann sem er felldur sem ágætis tilraun sem megi ítra áfram [ath. mitt orðalag, ekki þeirra]. Gaza-búar á Telegram eru svo mest að telja upp hverjir dóu síðustu daga og minnast þeirra — það er jú skipulagt þjóðarmorð sem er viðhaft þar — varfærnislegast væri að segja að það sé ekki líklegt til árangurs að bjarga gíslum með því að svelta alla eða sprengja upp, en það er eflaust best að kalla hlutina sína réttu nafni: þjóðarmorð.
Mér sýnist á öllu, miðað við áframhaldandi loftárásir Ísraelsmanna, að þeir ætli sér að draga þetta á langinn og átökin og þjóðarmorðin muni stigmagnast. Meiri stigmögnun þrátt fyrir að nýjustu tölur sýni að hagkerfið þoli þetta illa, sálarlíf hermanna alls ekki, alþjóðasamfélagið (vonandi) er alveg að fá nóg og enginn augljós ávinningur sjáanlegur. Til að útskýra af hverju þarf einhvern betur að sér í real-politik en mig, einhvern sem veit hvaða fleiri breytur skipta máli í „raunveruleikanum“ eða kannski einhvern sem er betur að sér í grimmd.
Ég er að prufa gera kjötsúpu í slow-cooker í fyrsta sinn. Á pizzu í frystinum ef allt klikkar.
let dream = true;
let surrender = false;
if (dream) {
surrender = true;
}
Þetta er hálf tilgangslaus kóði. Steinn Steinarr var engin Ada Lovelace.
Það þarf einhver að mata vélarnar með bulli. Rangar og skrítnar tengingar eru skapandi, og sköpun getur þýtt nýjar hugmyndir, og nýjar hugmyndir eru peningar. Það verður ekkert ljóðskáld atvinnulaust næstu árin, sem hefur í för með sér mikinn skort á sjálfsútgefnum ljóðabókum. Eftir áratug eða tvo verður fólk tilbúið að greiða himinháar upphæðir fyrir ljóðabækur og þá tekur við stutt tímabil mikillar grósku.